Björt framtíð í Reykjavík | Frambjóðendur

8. Nichole Leigh Mosty

Nichole Leigh Mosty

Tvítyngd börn þurfa meiri kennslu í móðurmálinu.

Ég fæddist 1972 í smábæ í Michigan, Bandaríkjunum. Ég eyddi bernskuárunum í vernduðu umhverfi þar sem ég naut lífsins á hverri stundu. Ég stóð mig vel bæði í skóla og frjálsum íþróttum þar sem ég á enn nokkur met í 400 metra hlaupi. Eins og flestir Bandaríkjamenn flutti ég að heiman við lok skólagöngu rúmlega 17 ára í leit af lífinu en aldrei datt mér í hug að ég myndi enda hér!

Leitin byrjaði í Colorado þar sem ég hóf hálskólagöngu hjá C.U. Boulder, fór svo aftur heim til Michigan, síðan til Boston og þar kynntist ég eiginmanni mínum Garðari Kenneth Mosty. Á þessari leit að lífinu naut ég þess mest að vera umvafin fjölbreytni með því að starfa við mörg ólík en skemmtileg störf. Ég vann sem þjónn á Pizza Hut, salat stúlka á sjávarveitingahús, kokkteil þjónn á barvagni hjá Golfklúbbnum, Au Pair, verslunarstjóri í antíkbúð og í afgreiðslunni hjá Flugleiðum. Draumurinn var að verða frægur kokkur.

Í desember 1999 fluttum við hingað til Reykjavíkur en það átti að bara að vera stutt dvöl. Garðar var að ljúka námi sem bakari og ég fann hvergi starf nema við ræstingar, eins og margir innflytjendur sem eiga eftir að læra íslensku kannast við. Fyrsta af mörgum tækifærum kom til mín þegar ég hóf störf sem leiðbeinandi í leikskólanum. Ég var strax ástfangin af starfinu og byrjaði fljótleg að læra íslensku. Ég og Garðar keyptum okkar fyrstu íbúð í Spóahólum í Efra Breiðholtinu og þar búum við enn. Fallegasta hverfi í Reykjavík að mínu mati. Árið 2003 hóf ég nám hjá Kennaraháskóla Íslands á leikskólakennarabraut og útskrifaði árið 2007 með fyrstu einkunn. Árið 2013 lauk ég M.Ed próf af menntavísindasviði Háskóla Íslands einnig með fyrstu einkunn. Ég er mjög stolt af þessum árangri vegna þess að þegar ég flutti hingað vildi ég strax fara aftur heim því ég fann mig hvergi hér.

Í dag býð ég mig fram í 8. sæti hjá Bjartri framtíð því að ég vil taka þátt í búa til bjartari framtíð fyrir fólk sem býr í Reykjavík. Ég er ástfangin af Reykjavíkurborg og nýt þess að fylgjast með hve hratt hún breytist og þróast. Þegar ég fæ erlenda gesti í heimsókn finnst mér lang skemmtilegast að sýna þeim fallegu borgina okkar. Ég er tveggja barna móðir og vil að börnin mín upplifi sömu ást og væntumþykju fyrir borginni og ég. Ég geri allt sem ég get í núverandi starfi sem leikskólastjóri til að efla þjónustu og bæta borgina og nú vil ég fá tækifæri að dreifa ást minni lengra og gera meira. Hægt er að segja ég vilji skila Reykjavík því sem ég hún hefur gefið mér.

Æ ♥ Reykjavík