Björt framtíð í Reykjavík | Frambjóðendur

3. Ilmur Kristjánsdóttir

Ilmur Kristjánsdóttir

Engin úthverfi. Bara sjálfsögð hverfi.
Blússandi kúltúr í öllum hverfum.

Ég heiti Ilmur Kristjánsdóttir og er í 3. sæti á lista fyrir Bjarta Framtíð í borgarstjórnarkosningum 2014.

Ég fæddist í Reykjavík en á ættir að rekja til Grundarfjarðar í föðurætt og til Ísafjarðar í móðurætt. Ég er alinn upp á Óðinsgötunni í miðbæ Reykjavíkur og var í Austurbæjarskóla þangað til ég varð sjö ára og flutti til Danmerkur. Þá var ég tvö ár í Nivárödgárdskole. Þess vegna hef ég mjög góðan danskan hreim þrátt fyrir takmarkaðan orðafjölda. Ég bjó reyndar líka tvö sumur í Danmörku þegar ég var 18 og 19 ára í kommúnum með vinkonum mínum úr MH og vann sem „stuepige“ og bjó um rúm á hótelherbergjum. Þó mér hafi leiðst vinnan þá finnst mér gaman að skipta á rúmum í dag og bý um rúmið mitt á hverjum degi, jafnvel þó það sé kvöld og ég sé að fara að sofa.

Aðrar sumarvinnur á námsárunum eru fiskvinnsla, símaver, pizzuafgreiðsla, garðvinna, vinna með einhverfum og mikið götuleikhús.

Þegar ég útskrifaðist úr MH fór ég að vinna á leikskóla stuttu áður en ég hóf nám við Leiklistarskóla Íslands, seinna Listaháskólann. Það var gaman. Fyrsta hlutverkið mitt eftir útskrift var Lína Langsokkur. Ég elska leiklist og ég elska að vinna í leikhúsi, ég elska hvað maður getur endalaust haldið áfram að leita og þroskast í faginu og ég elska hvað fólk er skemmtilegt.

Að fara í stjórnmál er beint framhald af því sem ég elska – að vinna með skemmtilegu fólki við að gera eitthvað fallegt og reyna að breyta heiminum. Ég vil hafa bein áhrif á samfélagið sem við búum í, ég vil sitja í nefndum og ráðum og ákveða allskonar og ég vil að öllum líði sem best og ég vil gæta hagsmuna þeirra sem ekki geta gætt þeirra sjálfir. Ég vil kynnast nýju fólki með allskonar skoðanir og vinna með því að finna bestu leiðirnar til að gera Reykjavík að borg fyrir alla. Ég trúi því að Reykjavík geti verið leiðandi í réttlátu, frjósömu og hagkvæmu samfélagi.